Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 208/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 208/2023

Miðvikudaginn 21. júní 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, dags. 24. apríl 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. mars 2023 um að samþykkja umsókn barnsmóður hans um milligöngu um meðlagsgreiðslur frá 24. febrúar 2022. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 24. febrúar 2023, sótti barnsmóðir kæranda um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur með börnum þeirra frá sambúðarslitum. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. mars 2023, var kæranda tilkynnt um milligöngu stofnunarinnar á meðlagsgreiðslum til barnsmóður hans frá 24. febrúar 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. apríl 2023. Með bréfi, dags. 26. apríl 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. maí 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. maí 2023. Engar athugasemdir bárust.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 20. mars 2023, um að krefja kæranda um meðlag frá 24. febrúar 2022.

Kærandi telji afar óeðlilegt að Tryggingastofnun ríkisins taki slíka ákvörðun og heimili meðlagsgreiðslur án þess að veita þeim aðila sem innheimta skuli hjá andmælarétt samkvæmt IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Á þessu tímabili hafi synir hans dvalið jafnt hjá foreldrunum. Þeir hafi fengið að ráða sér nokkuð sjálfir, enda X og X ára gamlir, og kærandi hafi tekið sinn þátt í kostnaði sem hafi hlotist af þeim á öllum þessum tíma, óháð því hvar þeir hafi dvalið þegar kostnaðurinn hafi fallið til. Hvort sem það séu æfingagjöld, fatnaður, skólabækur, skólagjöld, ökupróf eða hver annar kostnaður sem fylgi því að eiga börn. Meðfylgjandi kæru hafi kærandi sent inn skjal með millifærslum hans til móður drengjanna á þessu sama tímabili.

Kærandi hafi ávallt haldið skrá yfir þann tíma sem drengirnir dvelji hjá honum. Samkvæmt skránni hafi annar drengurinn dvalið hjá honum í X daga á umræddu X daga tímabili, þ.e. X% tímans. Hinn drengurinn hafi dvalið hjá honum í X daga á umræddu X daga tímabili, þ.e. X% tímans. Hvað varði þátttöku hans í framfærslu drengjanna á umræddu tímabili þá hafi millifærslur til barnsmóður hans vegna framfærslu drengjanna, æfingagjöld, skólagjöld og tannréttingar, verið að fjárhæð X kr. Annar útlagður kostnaður hans vegna framfærslu drengjanna, fatnaður, hlutir, millifærslur til drengjanna og fleira, hafi verið samtals X kr. Heildargreiðslur hafi því verið X kr.

Framangreindur kostnaður/framfærsla hafi öll verið vegna drengjanna og tilheyrt þeim að öllu leyti. Vissulega hafi skrá hans þó eingöngu tekið til stærri kostnaðarliða og sé því alls ekki tæmandi en skrána sé að öllu leyti hægt að styðja með gögnum, þ.e. kreditkortafærslur og aðrar millifærslur.

Með vísan til framangreinds sé ómögulegt að sjá nokkra sanngirni fólgna í því að byggja úrskurð um afturvirkar meðlagsgreiðslur með þeim hætti sem gert hafi verið, þegar upplýsingar sem þessar liggi fyrir. Kærandi telji óeðlilegt að ekki sé aflað gagna hjá báðum foreldrum áður en jafn mikilvæg ákvörðun um meðlagsgreiðslur sé tekin. Þegar kærandi og barnsmóðir hans hafi skilið að skiptum þá höfðu því miður ekki tekið gildi ákvæði sem heimili skipta búsetu barna ef um sameiginlega forsjá sé að ræða. Það hafi því miður ekki verið aðrir möguleikar til staðar fyrir hann á umræddum tíma en að skrifa undir samning um meðlög þar sem fyrrum sambýliskona hans hafi krafist þess að fá lögheimilið á báðum börnum til sín en hafi þó fullyrt á sama tíma að hún myndi ekki óska eftir meðlagi vegna þeirra. Það hafi ávallt legið fyrir að hann myndi taka fullan þátt í að greiða fyrir þær nauðsynjar sem fylgi því að eiga börn á skólaaldri. Um hafi verið að ræða munnlegt samkomulag þeirra á milli þess efnis að hann tæki fullan þátt í öllum kostnaði sem tengdist drengjunum þeirra og hún myndi ekki krefjast meðlags vegna sama tíma. Nú sé hins vegar annað hljóð komið í strokkinn þar sem þau standi í deilum um eignaskipti og telji hann þetta hreina hefndaraðgerð í þeirri „rimmu“.

Samkvæmt Tryggingastofnun ríkisins standi meðlagsskuld hans vegna umrædds tímabils í X kr. en á sama tíma hafi hann lagt til X kr. Ómögulegt sé því að sjá að sanngjarnt teljist að hann borgi rúmlega tvöfalda þá fjárhæð sem Tryggingastofnun krefji hann nú um vegna eins og sama tímabils, vegna framfærslu drengjanna.

Þess utan megi sjá að einungis greiðslur hans til móður drengjanna á tímabilinu séu nánast jafn háar og sú fjárhæð sem Tryggingastofnun hafi úrskurðað að hann greiði henni afturvirkt vegna sömu framfærslu, muni þar einungis um X króna.

Með vísan til alls framangreinds fari kærandi fram á að úrskurður Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur aftur í tímann verði felldur úr gildi. Kærandi geti fallist á að meðlagsgreiðslur hefjist frá 1. apríl 2023 enda taki móðir drengjanna þá á sig allan kostnað vegna framfærslu þeirra þar til þeir verði lögráða og meðlagsúrskurðurinn gildi.

Þar sem krafan hafi þegar tekið að safna vöxtum sjái hann sér ekki annað fært en að borga hana en hann geri það með fyrirvara um að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála verði honum í hag og hann fái umrædda upphæð endurgreidda.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að verða við beiðni barnsmóður kæranda um að hafa milligöngu um meðlag til hennar með börnum þeirra aftur í tímann fyrir tímabilið frá 24. febrúar 2022.

Ákvæði 63. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 kveði á um það að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Í 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berist stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. ekki við.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Tryggingastofnun hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 20. mars 2023, að stofnunin hefði samþykkt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til barnsmóður hans frá 24. febrúar 2022 með börnum þeirra.

Tryggingastofnun hafi borist umsókn barnsmóður kæranda um meðlag, dags. 24. febrúar 2023, um meðlagsgreiðslur frá dagsetningu sambúðarslita ásamt staðfestingu á samkomulagi um forsjá, lögheimili og meðlag vegna sambúðarslita, dags. 23. ágúst 2021, þar sem komi fram að kærandi skuli greiða meðlag með börnum sínum frá 1. september 2021 til 18 ára aldurs.

Hlutverk Tryggingastofnunar sé að hafa milligöngu um greiðslu meðlags þegar ákvörðun hafi verið tekin með lögmætum hætti. Ef foreldri leggi fram löggilda meðlagsákvörðun beri Tryggingastofnun samkvæmt 63. gr. almannatryggingalaga og 67. gr. barnalaga að hafa milligöngu um greiðslu meðlags, allt að 12 mánuði aftur í tímann. Lög veiti Tryggingastofnun ekki heimild til að taka önnur gögn en talin séu upp í framangreindum ákvæðum til greina við milligöngu um greiðslu meðlags.

Hjá Tryggingastofnun liggi fyrir löggild meðlagsákvörðun, þ.e. samkomulag um forsjá, lögheimili og meðlag vegna sambúðarslita, dags. 23. ágúst 2021, sem kveði á um meðlagsgreiðslur frá kæranda til barnsmóður hans. Þá liggi fyrir umsókn barnsmóður kæranda um meðlag.

Með vísan til framangreinds beri Tryggingastofnun skylda til að hafa milligöngu um meðlag samkvæmt lögformlegri meðlagsákvörðun sé þess farið á leit við stofnunina allt að 12 mánuði aftur í tímann. Tryggingastofnun hafi engar heimildir til að virða að vettugi lögbundna skyldu sína til að greiða meðlag samkvæmt hinni lögformlegu meðlagsákvörðun. Tryggingastofnun hafi því borið að hafa milligöngu á meðlagi til barnsmóður kæranda frá 24. febrúar 2022 eins og óskað hafi verið eftir og hafi ekki heimild til að taka til greina það sem kærandi taki fram í kæru sinni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi margsinnis í úrskurðum sínum staðfest þetta hlutverk Tryggingastofnunar og að ekki sé heimilt að horfa til annarra atriða við ákvörðun um milligöngu meðlagsgreiðslna. Í því samhengi skipti ekki máli hvort barn hafi jafna búsetu hjá báðum foreldrum sínum eða hvort greiðsla meðlags hafi farið fram fyrir það tímabil sem Tryggingastofnun hafi samþykkt milligöngu meðlags. Þá hafi nefndin sagt að ekki sé heimilt að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarki lögbundinn rétt meðlagsmóttakanda til milligöngu meðlagsgreiðslna frá stofnuninni, eins og til dæmis að gefa greiðanda kost á að sýna fram á að meðlag hafi verið greitt fyrir sama tímabil. Meðal úrskurða nefndarinnar varðandi þessi atriði megi nefna úrskurði nr. 312/2017, 333/2018, 017/2019, 215/2019, 407/2019, 408/2019, 059/2020 og 076/2021.

Að gefnu tilefni skuli tekið fram að 1. janúar 2022 hafi tekið í gildi breyting á barnalögum á þá leið að nú geti foreldrar samið um skipta búsetu barna sinna hjá sýslumanni. Við staðfestingu sýslumanns á samningi um skipta búsetu falli niður samningur, úrskurður, dómsátt eða dómur sem kunni að liggja fyrir um umgengni og meðlag.

Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn þá sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglur og úrskurði úrskurðarnefndar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. mars 2023 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 24. febrúar 2022.

Kveðið er á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar ríkisins í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar segir að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla laganna, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni, sem hann hefur á framfæri sínu, snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags og annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga. Samkvæmt þágildandi 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá þágildandi 4. mgr. 20. gr. laganna ekki við.

Í þágildandi 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er að finna heimild til að setja reglugerð um framkvæmd ákvæðisins og hefur reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga verið sett með stoð í því lagaákvæði, sbr. þágildandi 70. gr. laganna. Fjallað er um heimild til að greiða meðlag aftur í tímann í 7. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. er heimilt að greiða meðlag í allt að 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem gögn samkvæmt 5. gr. berast Tryggingastofnun. Þá segir í 2. og 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar:

„Þegar meðlagsákvörðun, þar með talin ákvörðun um meðlag til bráðabirgða skv. 9. gr., og ákvörðun um framlag til menntunar eða starfsþjálfunar skv. 10. gr. er eldri en tveggja mánaða skal einungis greiða frá byrjun þess mánaðar sem umsókn og fylgigögn skv. 5. gr. berast, nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geta réttlætt greiðslur lengra aftur í tímann, allt að 12 mánuði. Með sérstökum ástæðum er m.a. átt við ef meðlagsmóttakanda hefur af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar.

Þegar sótt er um greiðslu aftur í tímann á grundvelli meðlagsákvörðunar sem er eldri en tveggja mánaða skal ennfremur gefa meðlagsskyldum aðila kost á að sýna fram á að meðlag hafi þegar verið greitt fyrir sama tímabil og sótt er um.“

Samkvæmt framangreindu ber Tryggingastofnun ríkisins að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur, berist beiðni þar um frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Fyrir liggur að barnsmóðir kæranda, sem er meðlagsmóttakandi, sótti um milligöngu Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur með börnum þeirra frá sambúðarslitum með rafrænni umsókn þann 24. febrúar 2023. Stofnunin samþykkti umsóknina á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar sem staðfest var hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 23. ágúst 2021. Samkvæmt samkomulaginu ber kæranda að greiða barnsmóður sinni einfalt meðlag með hvoru barni frá 1. september 2021 til 18 ára aldurs barnanna. Í kæru er greint frá því að kærandi telji þann tíma sem krafa Tryggingastofnunar nái til, þ.e. 24. febrúar 2022 til 31. mars 2023, ekki réttan þar sem kærandi hafi greitt samtals X kr. inn á reikning barnsmóður sinnar á tímabilinu auk þess að hafa greitt annan útlagðan kostnað vegna framfærslu barnanna að fjárhæð samtals X kr. Heildargreiðslur hafi því verið X kr. sem eigi að koma til frádráttar kröfum hennar þar sem greiðslurnar hafi sannarlega falið í sér meðlag með börnunum.

Hlutverk Tryggingastofnunar í tengslum við meðlagsgreiðslur markast af ákvæðum viðeigandi laga. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er stofnuninni falið að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur, sé þess farið á leit við stofnunina, í þeim tilvikum þar sem lögformleg meðlagsákvörðun liggur fyrir. Í ákvæðinu, sem er grundvöllur ákvörðunar stofnunarinnar, segir nánar tiltekið að hver sá sem fær lögformlega ákvörðun um meðlag með barni geti snúið sér til stofnunarinnar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags samkvæmt ákvörðuninni.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af þágildandi 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun beri að greiða meðlag í samræmi við meðlagsákvörðun. Þá telur úrskurðarnefndin að þágildandi ákvæði 4. mgr. 63. gr. laganna feli í sér takmörkun á greiðslu meðlags aftur í tímann, þ.e. að ekki sé heimilt að greiða meðlag lengra en tólf mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem viðeigandi gögn bárust Tryggingastofnun. Í ljósi þess og með hliðsjón af þróun lagaákvæðisins og lögskýringargögnum telur úrskurðarnefnd velferðarmála að túlka verði heimild Tryggingastofnunar til greiðslu aftur í tímann samkvæmt þágildandi 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar á þá leið að stofnuninni beri almennt að greiða aftur í tímann í samræmi við lagaákvæðið ef meðlagsákvörðun kveður á um það, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 312/2017. Að mati nefndarinnar hafa lög ekki að geyma heimild til að setja frekari skilyrði fyrir greiðslu aftur í tímann. Þá telur úrskurðarnefndin að reglugerðarheimildin í þágildandi 70. gr., sbr. þágildandi 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar, feli ekki í sér heimild til að setja viðbótarskilyrði í reglugerð sem takmarkar lögbundinn rétt meðlagsmóttakanda til milligöngu meðlagsgreiðslna frá Tryggingastofnun.

Eins og áður hefur komið fram liggur fyrir í máli þessu staðfest samkomulag Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 23. ágúst 2021, sem kveður á um meðlagsskyldu kæranda með börnum þeirra tveimur frá 1. september 2021 til 18 ára aldurs. Í ljósi þess bar Tryggingastofnun að fallast á umsókn barnsmóður kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur. Það er því mat úrskurðarnefndar að ekki sé heimilt að synja meðlagsmóttakanda um milligöngu meðlagsgreiðslna aftur í tímann með vísan til greiðslna til barnsmóður kæranda og annarra útgjalda vegna barna þeirra.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. mars 2023 um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður kæranda frá 24. febrúar 2022.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til barnsmóður A, frá 24. febrúar 2022, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum